Færsluflokkur: Bloggar

Langþráð helgi

Er runnin upp.  Þessi vika hefur verið strembin,  í skólanum, krakkarnir, fréttirnar, aukavinnan, jebb ansi strembin bara.  Svo það er góð  tilfinning að vita til þess að hægt sé að laga til á heimilinu um helgina, þar sem það hefur alveg setið á hakanum.  En þegar álagið er mikið, þá situr það á hakanum, sem er samt ekki gott, því ef allt er á hvolfi í kringum mig, þegar álagið er mikið, þá verð ég enn pirraðri, vítahringur já.

Og æji...bóndadagur í dag, og enginn bóndi, slæmar fréttir af yfirmanninum í þjóðfélaginu, næstum að koma mánaðamót og enginn peningur í buddunni, kattarskömmin ældi á stofugólfið, 10 þvottavélar óþvegnar, og slatti af skólaverkefnum óunnin fyrir mánudag........GEISP ég held ég leggi mig bara !

 


Dapurlegt..Nei Hræðilegt

Skelfilegt.

Ég er að hlusta á borgarafundinn í tv. Gott mál, gott mál og við eigum að mótmæla og hafa hátt lengi áfram og ekki gefast upp.  ( Ef ég þarf í bæinn, þá á ég að stíla inn á laugardagana sko)

En það er annað sem heltekur hugann minn núna, og svei mér kreppan okkar bliknar bara í samanburði.

Ég hlustaði á mjög svo fróðlegan fyrirlestur i dag um tilurð og stöðu átakanna á Gaza.  Og síðan verið að horfa á myndir ( sem ég setti á svo á feisið), fréttatiminn í kvöld um ástandið, og ég er hreinlega orðin agndofa. Á okkar tímum er verið að slátra fólki við miðjarðarhafið,þjóðarhreinsun í gangi og það gengur illa að ná að stöðva þetta af okkur hinum sem búum á þessarri jörð.  Auðvitað geri ég mér grein fyrir að þetta hefur oft verið að gerast og um alla tíma og maður drekkur kaffið sitt fyrir framan tv, og fer svo bara að klóra sér í rassgatinu.  En í kvöld...... ég er sjokkeruð, sorgmædd og leið.   Kreppan..... my ass....,

Börnin mín, hafa fylgst með þessu, sérstaklega Brynja, báðum málunum og hún skældi um daginn, já skældi yfir þessu ástandi, og síðan reiddist hún bara helling og úthúðaði Geir H Haarde....brjáluðu mönnunum í Ísrael, og svo kom þrumuræða frá henni, afhverju menn gera ekki bara þetta og gera bara hitt. Hún er nokkuð glúrin skottan sko.

En maður finnur fyrir vanmætti sínum, en mér finnst samt algjörlega lágmarkskrafa að íslendingar mótmæli þessum atburðum hávært og sendi skilaboð frá okkur um fordæmingu okkar á þessum morðum.

farin að horfa áfram á fjandans kreppufundinn i tv............ 


Taugarnar skemmdar

Sko, ég veit að margt getur farið í taugarnar á mér, og ýmislegt sem er að gerast í þjóðfélaginu fer í taugarnar á mér,  en furðulegt nokk, það er misjafnt hversu vel maður finnur fyrir taugunum !!  

Ég ætti til dæmis að finna verulega fyrir taugunum á mér, þegar ég horfi og hugsa um allar skelfilegur afleiðingar efnahagsástandins, jújú ég finn fyrir taugaboðum, en jæja það hefur ekki heltekið þær rosalega, geðveikislega.

Reyndar fann ég verulega kippi í taugaendum, þegar ég sá fréttina um gamla fólkið sem var flutt nauðungarflutningum úr einbýli sínu í fjölbýlisstofur á Kristnes.... meira að segja sá rauða blossa fyrir augum.

En eitt sem pirrar mínar taugar verulega og hefur verið ansi lengi, er þegar fólk segir og skrifar "Til hammó með ammó "  !!!  

Hvað á þetta að þýða???   Til að stytta hamingjuóskir með afmælin, þá gerir FULLORÐIÐ fólk þetta ! 

Ég held reyndar að þetta sé að segja mér að ég sé með laskaða taugaendsboða,  láti tittlingaskít hamast í taugunum en dýpri og alvarlegri áföll, skauta framhjá, merkilegt nokk. 

En kæra fólk sem man eftir mér í október þegar minn dagur rennur upp, ekki senda mér til hammó með ammó......  nema að þið viljið að ég renni ekki hýru auga til ykkar:))

er

Nýtt ár, nýjar áherslur

Þá er enn eitt árið að renna sitt skeið og nýtt að hefjast.  Ótrúlega magnað að upplifa enn ein áramótin :)  Ég sat með minnisbók í hönd og já ætlaði að skrifa "áramótaheit".   En það flæktist bara fyrir manni, þar til ég sá einhversstaðar ( ójú feisinu) að vinkona mín kallaði þetta ekki "áramótaheit" heldur ÁHERSLUR sem hún ætlaði að tileinka sér næsta árið.

Brilljant hugmynd, svo nú sit ég og finn út hvaða áherslur ég ætla að leggja á mig og mína fyrir árið 2009.   Það er mun auðveldara að skoða það útfrá því sjónarhorni finnst mér, einhvernveginn raunsærra og þá um leið þarf maður ekki að hafa nagandi samviskubit ÞEGAR en ekki EF maður fer aðeins útaf sporinu, bara vera meðvitaður og kippa sér upp á sporið þá jafnóðum.  

En jól og áramót voru hin bestu hjá mér, ég naut þess að vera í ró og næði, en samt með hæfilega miklum félagsskap, bæði fjölskyldu og vina, þó tröllskessan ég blómstraði í karokee á gamlárs......ojæja, maður er bara eins og maður kemur af skepnunni,  kannski áhersla ætti að vera á nýju ári að vera stundum svolítið dannaðari,  ég er soddan sveitavargur og það truflar mig stundum í sálinni, en settleg verð ég líklega aldrei alveg. 

Og góð tilhugsun að nú tekur við skólinn aftur og hversdagslífið sem maður andvarpar stundum yfir að sé ekki nógu tilbreytingarmikið, er orðið eftirsóknarvert í augnablikinu.   

Rifjaðist upp fyrir mér í gær að:  fræg spákona sagði við mig (fór til hennar 2006) að árið 2009 yrði ægilega fínt ár, ástin og lífið myndi blómstra þá, jahérna ég fór út frá henni smá hundfúl og man að ég hugsaði : EKKI fyrr en 2009....christ það er eilífð þangað til....  EN viti menn, eilfífðin er runnin upp, jæts ekkert smá spennt fyrir árinu:)


Jólakveðja

Nú eru síðustu klukkutímar að líða þar til jólin ganga í garð.  Ég ætla nú ekki að gera annáll hérna, en varð hugsi, um þær breytingar sem hafa orðið á högum mínum á einu ári.   Ég er óskaplega glöð yfir þeim, og þó það sé aðeins að narta mig núna að ég fór aðeins framúr fjárheimildum til að gera jólahaldið gott þá bæti ég það upp með glás af hafragraut í janúar:)

Maggi minn er kominn, hér ilmar hangikjötslykt í kotinu, allt hreint og skreytt, krakkarnir hin spökustu og jólakveðjur hljóma í útvarpi.  Betra gerist þorláksmessukvöld ekki, og maður er sáttur í hjarta.

Ég óska öllum gleðilegra jóla, friðar og farsældar á næsta ári.:)


Jólalegt veður

Hér í Borgarfirði er jólalegasta veður sem hugsast getur.  Góður snjór yfir öllu og snjóar enn.  Milt og gott veður samt.  Krakkarnir eru bara stanslaust úti í brekku að renna og koma reglulega inn rjóð og blaut til að fá sér að borða.   Ég kann nú eiginlega ekkert að vera svona í fríi á þessum tíma, og er bara að læra það.  Hef dundað mér við smábakstur og svona, lesa og prjóna.   Reglulega kemur einhver tilfinning upp, svona stress sko, ætti að vera gera þetta eða hitt, finnst ég ætti að taka stórhreingerningu, eða bara eitthvað sem ég veit ekki samt almennilega hvað ætti að vera.

En slæ á það,  enda flyt ég strax á nýju ári og því stórhreingerning náttúrlega td. út í hött.   En þessi tilfinning, svona órói eitthvað, of rólegt, er eins og maður sé að svíkjast um.   Eigi að vera á fullu,  þetta er bilun náttúrulega, en viss um að margir kannast við þetta.

Í dag verður farið í jólatrjáaleiðangur, hef aldrei upplifað það að labba um lund og höggva sitt eigið tré, það verður skemmtileg reynsla.     Mamma er stödd hjá okkur núna og það er ósköp notalegt. 

Nú verður farið í að reyna að gera hálfmána, hef ekki gert þá áður sjálf, en man eftir mér sem krakka að loka þeim með gaffli,   búin að gera eina tilraun áður en þurfti að henda deiginu, sökum mikils ófullkomleika.  OG einhverntímann hefði ég nú gefist upp, fyrst það tókst ekki í fyrsta kastinu, en mín er alltaf að þroskast og ákvað að gera bara strax aðra tilraun......  og ja...ef hún óheppnast, þá bara aftur og aftur þar til ég næ því:)))

Og að lokum:   Mér gekk bara býsna vel í prófum og fékk ágætiseinkunnir,  það var sko gleði í mínu hjarta eftir að þær voru kunngjörðar:)


by the way

 

 spá dagsins:   Hvar kemst maður á sjó ? ? ?

Vog: Þegar þér líður eins og einmana kúreka eftir langan og rykugan reiðtúr er kominn tími fyrir breytingar. Leitaðu á önnur mið því nógir fiskar eru í sjónum.


Jahérnahér

Alveg með ólíkindum.... upptakan af rökstuðningii reynis í gærkveldi, var ótrúleg. Ef svo mikið fjaðrafok varð af "ómerkilegri" frétt að hans sögn, hvað í ósköpunum gæti hafa gengið á ef alvöru frétt yrði birt af eigendum fjölmiðla?   En það hefur náttúrlega varla reynt á það, þar sem ritstjórar virðast ekki rjúka í það að skoða hvaða vef og óhugguleg heit þessir auðmenn hafa spunnið.  Ef Jón Sullenberger stofnar almennilega lágvöruverslun um allt land, mun ég storma í þá verslun og jafnvel keyra eitthvað lengra til að versla,  hef alveg fundið fyrir því að ég er með óbragð í munni í hvert sinn sem ég fer í Bónus, en til þess að skrimta er maður nauðbeygður að versla þar, hef reynt að fara annað en þá því miður tæmist buddan um miðjan mánuð á þeim tíma.  Mér finnst ég vera svikari, og föst í neti,  og get bara nauðbeygð reynt að takmarka öll innkaupin, sem ég og geri,  og fyndnasta EKKI bara af  því að ég þurfi þess, heldur er oft meiri hvati að ég að skilja eins lítið eftir í þessum búðarkassa og hægt er, því ég hef ímugust á eigendum kassans.

Ég sem hef bara verið nokkuð svona róleg fram að þessu, enda upptekin af mér sjálfri algjörlega, en nú þegar rólegt er og maður ætti að njóta aðventu, er ég orðin öskureið loksins.   Ég get bara ALLS ekki tekið undir þetta Davíðs einelti, bara næ ekki þeirri mótmælaöldu gagnvart honum en ég er BRJÁLUÐ gagnvart Jóni Ásgeiri, Bjarna og öllu því hyski sem þar er í hópi. 

Afhverju í ósköpunum er ekki búið að frysta eignir þessarra manna?? Afhverju í ósköpunum er ekki búið að upplýsa meira um matador spilið þeirra ??  Minni enn og aftur á að í öðrum löndum, td voru Enron fjárglæframenn og nú einhver í New York  færðir í gæslu, á meðan rannsakað var hvaða glæpi þessir menn stunduðu, en hvar eru þessir íslensku glæponar ???  Í glæsiíbúðum sínum í London, kófsveittir að fela slóð sína,   og munu komast upp með það !!!!

Þökk sé samfylkingunni, forsetanum, og okkur hinum meðvirku hálfvitunum.   AMEN


Jólafrí :):)

Komin í jólafrí:))

Eftir að sjá alveg hvort ég geti sokkið mér niður í jólabækurnar þessi jól, eða hvort þurfi að rýna betur í einhverja námsbók......úff krossa fingur.

En þangað til......er ég farin að setja upp jólaljós og baka margar margar sortir...með krosslagða fingur:)


Jæja.....

Er svo óendanlega heppin, að stærðfræðikennari hafði áfangapróf í dag....sko rétt rúmlega viku fyrir lokaprófið.  Eins og maður var fúll, þá held ég að það hafi svo á endanum verið býsna gott, mesti skjálftinn fór þá úr manni.  En hvernig gekk.... það verður bara koma í ljós, ég var ekki alveg með allt á hreinu, en held sumt samt...

Pabbi krakkana var svo yndislegur ( hmmm já karlskrattinn á það til:)  að leyfa þeim að vera hjá sér ALLA næstu viku, þau voru að fara núna, og ég nýt þess í botn að sitja hér í þögninni:)  Nú hef ég sko akkúrat enga afsökun, og dembi mér bara á kaf í prófundirbúning, fyrsta prófið er á miðvikudag og síðan hvern dag í fimm daga.  Og óskipulagða ég, ætla að vera ýkt skipulögð í smáatriðum.  Fyrsta skipulagning í dag er: Fara í heita sturtu ( eða volga, það er víst það besta sem býðst á bænum ), snæða eitthvað huggulegt og setjast svo  niður við tölvuna og ákveða hvernig ég ætla að skipuleggja mig !  Ekki gott bara ?

Takk annars þið sem hafið peppað mann, það er eiginlega pínu óhuggulegt,  hve vinir og vandamenn hafa sýnt manni mikinn velvilja sko, og virðast hafa trú á manni,  ég svitna nú stundum yfir því, þegar krampinn hellist yfir og maður hefur akkúrat litla trú og held að maður sé mesti looserinn ever.  En auðvitað........ef að kæra fólkið mitt hefur trú á manni, auðvitað á ég að hafa það líka, að sjálfsögðu, annað væri sko bara dónalegt gagnvart þessu góða fólki, ég meina, þau eru öll snillingar að mínu mati og að sjálfsögðu hafa þau rétt fyir sér , ekki ég:) 

Svo nú verður spýtt í lófana, en miðað við allt og allt, þá verð ég glöð að fara yfir miðju prófana,  ef mér tekst að vera á meðaleinkunn, þá verð ég glöð, því þetta lið sem er með mér í bekknum eru ALLT snillingar. Ég held ég slaki aðeins á kröfunni að vera í topp 3-5...... nú verður maður raunsær:)

En skyrpið......eða hafið mig með í bænum ykkar, því þetta er mér mikilvægt, ég gleymi ykkur ekki í mínum bænum:) 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband