15.7.2008 | 22:45
Sól sól
aftur komin sól, og svei mér þá hvað sú gula léttir lundina bara ósjálfrátt. Það eru rólegheit á bænum núna, guttinn fékk gott boð um að fara með vini sínum í sumarbústað, svo honum var skutlað í rútu í gærmorgun austur á Laugavatn og við mæðgur einar í kotinu. Það er öðruvísi yfirbragð yfir öllu núna, það verður að segjast eins og er að eiginlega dettur allt í dúnalogn.
Mér varð nú að orði um daginn við þau þegar systkinaerjur stóðu sem hæst, hvursvegna þau létu svona stundum, og þóttist rifja upp að ALDREI létum við svona systkinin þegar ég var lítil og þó vorum við fimm sem ólumst upp í tröppugangi í aldri. Ég roðnaði nú aðeins þegar ég sleppti orðinu, því um leið skaust uppúr minningaboxinu ljóslifandi fyrir mér, þegar ég í miklu reiðikasti skutlaði skærum á eftir mínum elskulega tvíburabróður, og ekki vildi betur til en þau stungust á kaf í ökklann á honum....:( Gleymi nú ekki skömminni og iðrunarkastinu sem greip mig, því það hlaust af talsvert sár og hefði sko alveg getað endað verr. )
Þannig að ég stend mig núna af því að stynja og tuldra: Elskiði friðinn og strjúkiði kviðinn...en það var nákvæmlega það sem mamma stundi upp í gamla daga, en hún þurfti nú að díla við fimm kvikindi á meðan ég er nú bara með þessi tvö:) Hugsa stundum en örugglega ekki nægjanlega oft til hennar mömmu sem vann eins og skepna alla sína tíð, verkamannavinnu, umönnun aldraða og skúringar til að hafa ofan í þennan krakkaskríl, fimm stykki, + elstu tvö, og ekki voru nú pabbahelgarnar þá, ekki barnabæturnar, og held svei mér ekki meðlagið, eða allaveganna ekki frá barnsföðurnum, kannski ríkinu , eiginlega veit það ekki. Pabbahelgarnar sem eru bæði mér og börnunum mikils virði, fyrir þau að hitta pabba sinn og umgangast, fyrir mig, aðeins að draga andann léttar og "dekra" þá bara við sjálfa mig.
Ekki held ég að mamma með sín fimm yngri hóp og tvö elstu , hafi átt aðra hverja helgi frí, og farið í bíó, kaffihús eða eitthvað þessháttar. Ég man nú reyndar bara lítið til mömmu þannig, held hún hafi bara unnið og unnið og unnið, tekið aukavaktir, skúrað, og alltaf í strætó. Þreytt og lagði sig og svaf. Ég skammast min bara milljón núna þegar ég rifja þetta upp og ætla ekki að voga mér að kvarta yfir hlutskipti mínu. Og mér verður alltaf hugsað til mömmu þegar ég sé fálkaorðuveitingarnar sem forsetinn veitir á hverju ári, ætla nú ekki að gera lítið úr þeim, en þegar frú Jóna Jóns, titluð húsmóðir ( með fyrirvinnunna sina) fær fálkaorðu fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsmála....eða hr.Jón Jónsson fyrir ómetanlegt starf í þágu íþrótta, gott og blessað,en þá finnst mér stundum að frú Sjana í Breiðholtinu ætti að fá fálkaorðuna fyrir að koma 7 krakkakvikindum á legg, við þær aðstæður sem hún bjó við, og skilað þeim þokkalega heilum út í samfélagið, en jæja samt erum við öll eða flest þessarra krakkakvikinda með einhverja pústra á okkur eftir uppvöxtinn, en merkilega nokkuð heil samt:))
Svo heiðursorðuveitingu mína allaveganna fá þessar einstæðu, verkakvennakonur, sem ólu upp krakkaskrípin á árum áður, í dag er þetta gjörbreytt og einstæðar mæður sem vinna verkavinnu geta sótt i miklu meiri aðstoð og bætur og geta "dekrað" stundum við sig meira að segja.
Takk fyrir mig !
Athugasemdir
Amen fyrir því
Brynja (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 23:27
Hæ, Pálína.
Aldrei þessu vant er ég að lesa blogg mér til skemmtunar. En geri annars lítið af því. Ekki vegna þess að bloggin séu yfirhöfuð leiðinleg, heldur vegna þess að mér finnst stundum fara of mikill tími í blogglestur, að ég tali nú ekki um sjónvarpsgláp.
Hvað um það. Tilefni þessarar athugasemdar eru þankar þínir um mömmu og hvernig hún hefur í gegnum tíðina stikað áfram í gegnum súrt og sætt, mjög oft bara á þrjóskunni, það er ég viss um. Genin hennar ömmu hafa örugglega átt sinn þátt í því. Að gefast upp þó á móti blási er eiginlega ekki til í hennar orðabók. Við sem látum hvunndagshetjurnar ríða okkur á slig, eins og skáldið segir, ættum kannski að hugsa til þess tíma þegar engin úrræði þekktust til að taka á vandamálum sem leyst eru í dag með aðferðum læknisfræðinnar.
En ég er algjörlega sammála þér að fólk eins og mamma eigi það skilið að vera krossfest af forsetanum. Til þess að það sé nú samt möguleiki þarf einhver að sækja um það til orðunefndar sem er apparat á vegum forsetans. Það er því kærkomið verkefni hjá þér að kanna málið og sækja um riddarakrossinn fyrir gömlu svo möguleikinn verði til staðar. Við systkynin gætum allavegana vottað það að hún hefur lagt veruleg lóð á vogarskálar þjóðfélagsins.
kveðja
Bjarni
Bjarni Á (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 11:25
Já gaman að heyra frá þér Bjarni:) Og Ragga takk fyrir comment.
svei mér þá, ég ætla að skoða þetta orðudæmi nanar, hvernig það virkar, er kannski bara nog að vinir og vandamenn skelli inn greinargerð? eða kannski undirskriftalistar, já það er orðið forvitnilegt að vita hvernig tilnefningar verða til :)
Pálina (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.