Pabba helgar

Eru alveg nauðsynlegur hlutur í lífinu..... Finnst pabbinn býr ekki á heimilinu sem væri auðvitað samt lang æskilegast og eðlilegast,  en ja það er ekki þannig hjá mér og þúsundum annarra tilfella, þá er næstbesti kosturinn að pabba helgarnar verði næst eðlilegastar og æskilegastar.   Og þá er jafn nauðsynlegt að þær séu eðlilegar sko pabbahelgarnar.  Komin í hring en pointið er að ég keyrði með börnin í bæinn í gær.  Á leiðinni hugsaði ég að þetta væri bölvað vesen, langt á milli og kannski væri bara best að krakkarnir færu sjaldnar til pabba síns,  önnur hver helgi er auðvitað stutt frá hinni helginni.  EN þá fór ég að hugsa um mína æsku, það voru aðrir tímar þá og engar pabbahelgar.  Pabba minn þekkti ég lítið, og hitti sjaldnar.   Ekki var hringt og ekki voru gjafir.  Kannski var hringt á gamlárskvöld, og pabbarödd drafandi og með ögn af samviskubiti og þó.....veit ekkert hvort samviskubit var í röddinni, en eiginlega var frekar samviskubit í barnssálinni.  Óskað gleðilegs árs og þrátt fyrir allt gladdi það barnssálina.   Löngunin að eiga pabba sem maður gæti kúrt í hálsakoti hjá, löngunin að geta haft pabba sem gæti sett plástur þegar þyrfti, þráin  var alltaf fyrir hendi en ekki var hægt að uppfylla þá þrá.     Minning þar sem pabbi bar litla stelpu inn á sjúkrahús með fossandi blóðnasir,  er minning sem situr eftir i stelpusál, ekki fossandi blóðnasirnar, eða sjúkrahúsið, heldur nærvera pabbans, í ógnvænlegu umhverfi, en samt í fanginu á pabba sínum. 

Hversu auðveldara er það ekki fyrir stelpuskott  að geta hringt í pabba sinn óðamála, gleyma að heilsa en bara spyrja strax hvort hann vilji koma með á mamma mia bíó sem má syngja í.....eða strákpjakka að hringja í pabba sinn og spyrja hvernig eigi að finna lykilorð í playstation.... AFÞVI að þau hitta og spjalla við pabba sinn aðra hvora helgi, elda með honum mat, fara i bíltúr, og gera hversdagslega hluti, þó það  gerist bara AÐRA hverja helgi.  Og þegar þau eldast og eignast sín eigin börn, þá ætti ekki að vera  þröskuldur að hringja í pabba sinn og bjóða honum í mat, eða skottast í heimsókn til afans með barnabörnin.  Gvuð hvað ég vona að þau upplifi  það að þau eigi mömmu og PABBA alveg jafnt.  Veit að pabbinn þeirra vill það svo sannarlega líka.   En til þess þurfa samskiptin að vera og þessvegna eru pabbahelgarnar svona mikilvægar og nauðsynlegar.   Og þó fjarlægðir séu ívið meiri en venjulega, þá ætti það að vera forgangsmál að stuðla að því að samskiptin og samvera barnanna við pabba sinn, geti verið sem eðlilegust og stöðug.   Fátt er ömurlegra en að upplifa feimni við foreldri sitt, upplifa afskiptaleysi foreldris síns, upplifa höfnun foreldris síns og upplifa það að maður þekkir ekki foreldri sitt, að foreldrið sitt rugli nöfnum á barnabörnum sínum, eingöngu vegna þekkingarleysis og samskiptaleysis.......... það er ekki hlutverk foreldra.   Og þó það sé örugglega aldrei ætlun foreldris að börnin upplifi þetta, þá er það því miður svo sorglega mikið um sinnuleysið, og áður er en fólk er búið að snúa sér við, er barnið orðið fullorðið,  og of seint að byggja upp heilbrigt og eðlilegt samband milli barns og foreldris.  

Þessvegna mun ég halda áfram að skutlast með börnin aðra hverja helgi, og eða finna leiðir fyrir þau að fara,  þótt það sé "vesen" og ekki allir í stuði fyrir ferðalög.   Þegar á endann er kominn, er hægt að horfa til baka og sjá að það var þess virði.  Bæði fyrir börnin sjálf og ekki síður fyrir foreldrana sjálfa.   Eða þvi trúi ég......

Ps. og svo er óendanlega ljúft fyrir mömmuna að hvílast aðeins frá matseld og uppþvotti aðra hverja helgina....súrmjólk í sömu skálina alla helgina........fyrir mömmuna:)


Skemmtileg upplifun

Sem við Róbert upplifðum í gærkveldi.  Ég var að opna útidyrnar, tilgangurinn ósmart, semsagt að fá mér að reykja:(.  Bíllinn minn er alveg við húsið og kemur ekki fljúgandi snæugla og settist á þakið á bílnum.. Hún dvaldi þar alveg i smástund og nógu lengi að ég gat kallað á Róbert og við horfðumst hreinlega í augu við ugluna í ca hálfa mínútu.  Þetta var mjög skemmtileg upplifun, og við Róbert duttum í Harry Potter fíling og veltum fyrir okkur hvort væri möguleiki að Harry Potter ævintýri væri raunverulegt:)

Því miður missti Brynja af þessu........ og var mikið spæld, en hún var nebbnilega sofnuð.

Svo er skemmtilegur skiptimarkaður í gangi hér akkúrat núna, nágrannastúlka jafngömul Brynju kom við í morgun að fá lánað kökukefli því hún var að fara að baka kanilsnúða.   Brynju langaði þá líka að baka og er núna svo dugleg að baka súkkulaði smákökur.  Hin daman skilaði nú rétt í þessu kökukeflinu og með fylgdu  ilmandi og æðislegir kanilsnúðar handa okkur.   Og nú er Brynja að ljúka sínum bakstri og auðvitað hljóp hún yfir með ilmandi smákökur til vinkonu sinnar:)   Finnst ykkur ekki krúttlegt? :)


Allir i góðum fíling

hér í Sjónarhóli. Lina býr semsagt í Sjónarhóli og ekki laust við að Lína þessi sé búin að vera lík eldri Línu með rauðu flétturnar, allaveganna hefur hún ( þessi yngri ) verið dugleg að hlaupa úr einu í annað og hafa gaman að því sem hún er að gera:)  

En sparnaðarráð í kreppu.....kaupið lambahjörtu í matinn og þið fáið gómsætan og hollan kvöldmat fyrir heila kr: ca. 380 kr. fyrir þrjá... Ég semsagt eldaði einn pakka af lambahjörtum ( kostaði kr: 164.- ) í Bónus, sauð kartöflur ( sem voru á síðasta séns ) í stöppu, heimagerða rabbabarasultu með...... og krakkarnir - takið eftir - krakkarnir sögðu ummh ummh hvað þetta er gott !!   Meira að segja voru tveir guttar hér í heimsókn sem sögðu ojoj...... eru hjörtu í matinn hjá þér ? Róbert höfðaði til karlmennsku þeirra og manaði þá til að smakka og þeir gátu ekki annað en testað þetta ojbjakk.   En það var óborganlega fyndið að sjá undrunarsvipinn á þeim og þeir sögðu namm namm þetta er gott!  Heyrði i þeim þegar ég sá í iljarnar á þeim heim að þeir ætluðu að biðja mömmu sína að elda einhvertímann hjörtu hjá þeim.   Mín mun taka fleiri pakka næst og setja í frysti, fékk svo hjá minni gömlu fóstru upplýsingar um fleiri aðferðir við að elda þetta og það verða gerðar tilraunir með matreiðslu á hjörtum.   Spara spara..... það er það sem maður gerir í kreppu, ekki rétt? 


Komin

í nýju ( lesist nýrri) íbúðina.  Þökk sé mínum frábæru vinkonum Láru og Höllu sem mættu hér galvaskar á laugardag og settu sig í Gyðu Sól gírinn:)   Ég var nú búin að undirbúa nokkuð með þvi að bera alla lausu hluti og föt og svoleiðis niður.  Þar með þykist ég vera búin með vikuskammt af líkamsrækt því ég hljóp upp og niður stigann að mér fannst þúsund sinnum....en hætti samt fljótlega að telja ferðirnar.   En semsagt, þær redduðu mér dásamlega og hafi þær þúsund þakkir fyrir.   Og semsagt bara búið að koma öllu fyrir og orðið kósý hér hjá okkur á neðri hæðinni.   Svo í stað afslöppunar pabbahelgar hjá mér, fór helgin í þetta plús lærdóm. Ég tók eitt verkefni alvarlega, vann talsvert af því og var bara nokkuð ánægð með það, en átti eftir að vinna það með hóp.  Tók liðsheildin sig til og bara nýtti sér brot af því sem ég hafði fram að færa.............ehemm litla stjórnsama ég þarf víst að fara að læra það að ég hef ekki alltaf stjórnina, ég var svo ægilega ánægð með mig og mitt verk, en þurfti að átta mig á því að maður vinnur ekki allt einn, ef maður á að vinna sem liðsheild.  Gott á mig, gæti trúað að Maggi minn myndi nú glotta út í annað, ætli hann viti ekki manna best að ég þykist alltaf hafa rétt fyrir mér og mínar skoðanir og pælingar alveg hreint sannleikurin mikli:)   Þetta er eitthvað sem ég hef gott af því að læra sko.   En verð að játa að þegar ég labbaði út eftir verkefnavinnuna þá fannst mér mín vinna hafa verið nokkuð flott, og þeir hafi bara eyðilagt meistaraverk sem hefði fengið 10.........  En það er eitthvað sem ég kemst aldrei að svosem. 

Alltaf jafn gaman hjá mér, en finn að þreyta er að setjast i mig, enda eiginlega buin að vera á fullu að innbyrða og gera helling.   En ætla nú ekker að væla, farin af stað aftur, nú er það stærðfræði sem mun eiga hug minn allan i kvöld:)


Enginn veit hvað ...

átt hefur fyrr en misst hefur. Þetta máltæki hefur verið mér hugleikið síðastliðnar vikur.  Ef hægt er að telja heimilistæki til vinar, þá hefur besta vinkonan mín sl. ár verið uppþvottavélin.  Hún tekur við öllu sem ég skila til hennar, möglar auðvitað aldrei og vinnur verk sín í hljóði og vinnur þau vel.  

En þegar ég flutti hingað uppeftir kom í ljós að arkitektar íbúðarinnar sem ég er í , svo fáranlega sem það hljómar höfðu ekki gert ráð fyrir að þessi vinkona mín fengi pláss þar inni.  Því sendi ég hana aftur í bæinn og ég lýg því ekki að tárin runnu, þegar ég horfði á eftir henni í litla sendibílnum.

Í þrjár vikur hef ég semsagt lifað án hennar.   Í fyrstu hugsaði ég að þetta væri bara gott, það væri róandi og íhugandi að vaska upp í rólegheitum á gamla mátann, og þroskandi að láta krakka þurrka og sá þetta fyrir mér í ljómandi huggulegri mynd .  OG það var fyrst þannig, enda ég í fríi fyrstu vikurnar, dundaði mér við þetta.  En þegar skólinn byrjaði og smám saman tíminn að fyllast af öðrum þörfum en uppvaski, var þetta að verða pirrandi, vaskur fylltist áður en maður sneri sér við og krökkum fannst ekkert spennandi að halda á viskustykki, vildu frekar rjúka út að hjóla.  Söknuður minn eftir minni goðu vinkonu ágerðist, og ég var leið í hvert skipti sem átti að elda mat, tilhneigingin til að gera einfalt, þar sem ekki þurfti að brúka mikið leirtau óx, og eldhúsrúllu kaup stórjukust, ( nota eldhúsrullubréf undir ristaða brauði = sparar uppvask ).

Svo þegar ég var á gangi um daginn og rak augun á tómar gluggarúður á hæðinni beint fyrir neðan mig, ég klessti nefinu á rúðuna og viti menn....ég sá inn um gluggann,  stórt bil frá vaskaskáp yfir að ísskáp, hjartað í mér fór að slá, sá að þarna hafði arkitektinn sleppt bláu pillunni sinni og teiknað gat fyrir uppþvottavél.... Ég hljóp eins og fætur toguðu upp á skrifstofu og spurði hvort ég mætti skipta um íbúð, og hún var laus, svo lykil fékk ég !

Svo nú er ég á fullu að koma hinu dótinu mínu niður, búin að hringja í leigjendur mína og segi að þeir þurfi ekki að passa vinkonu mína lengur og er að gera ráðstafanir svo hún verði flutt hingað vestur til mín, ( reyndar gengur það illa, svo ég vippa mér við fyrsta tækifæri í borgina og sæki þessa elsku ) .  

Hef ekki enn komist að því  hvaða snillingur skapaði þetta tæki, en sá hinn sami á alla mína virðingu og ást:)  

Jæja, en tíminn líður og mörg verkefnin sem bíða.  Bless í bili, er farin að VASKA UPP...............


KLUKK

 Lengi að svara en ég var klukkuð um daginn, skelli þvi hér inn

 

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina

o  Oddi hf prentráðgjafi

o  Kassagerðin, sölufulltrúi

0  Sumarbyggð Súðavík - GERÐI ALLT

o  Plastprent hf - sölufulltrúi

 

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á

o æjjæj  engin sérstök

o jújú Mamma mia

o man engin nöfn á myndum

o Ok. segi passion of christ

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á

o Reykjavík  - Breiðholt

o Súðavík

o Sauðárkrókur

o Langholtsvegur

 

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar

o Desperat Housewifes

o klovn

o næturvaktin

o Anna Phil

 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum

o Bárðardalur vinsælastur

o Kýpur

o Barcelona

o Majorka

o London-Kaupmannahöfn- og fleiri borgir i styttri frium

 

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg

o Mbl.is

o bifrost.is

o ordabok.is

o visir.is

 

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft

o 7 lögmál velgengi

o munkurinn sem seldi sportbílinn sinn

o Skyndibiti fyrir sálina

o úff-- bara andlegar bækur mest

 

Fjórir bloggarar sem ég klukka

o Vordís

o Beggita

o Brynja

o Kolbrún delux

 

Hlakka til að sjá klukkin ykkar!


:) sniðugt

Settist við eitt lesborð í skólanum, fyrir ofan borðin eru myndir stúdentum í sparifötum  úr framhaldsnáminu i Rvk.  Ég leit yfir þær og mér fannst æðislegt að sjá: í beinni röð yfir borðinu sem ég sat við voru myndir af:

Helga tvíbbó mínum árið 1986 - Bjarni eldri bró árið 1987 - Vordís "fóstursystir" árið 1988.   Öll svona líka ægilega fín, brosandi og ungleg og i RÖÐ yfir lesborðinu mínu !!   Alveg klárt að þetta verður uppáhaldsborðið mitt og ég mun beita öllum brögðum til að halda því sem oftast. Sannfærð um að viskan frá þeim leki niður úr rammanum og beint oní minn haus:)  Þetta verður sérviskan í mér, að halda alltaf sama borðinu:)

 


dagur 2

Jæja, fyrsti dagur búinn og dagur 2 að byrja......ég ætla nú ekki að halda dagbókarfærslur hér, en verð að láta vita að fyrsti dagur var ÆÐI :)   Reyndar er að renna almennilega upp fyrir manni að þetta verður ekkert grín,  örugglega hörku púl og  mér skilst að ég megi undirbúa mig undir að það komi dagar þar sem  maður heldur að þetta séu bara boot camp búðir þar sem blóð, sviti og tár munu renna...........en jafnframt er fullyrt að fullnægjan og gleðin verði líka i samræmi við það. 

Fyndið, ég heyrði á fyrsta degi eina 3 kennara nota orðatiltækið að ef maður væri ekki með neitt "bíbb" á vörunum þá gengi þetta.   Frasinn hans Óla Stef ætlar að verða ódauðlegur, ég hef staðið mig sjálfa af því, þegar einhver pirringur kemur upp að segja við sjálfa mig þessi orð; Ekkert bíbb hérna, og þá getað hrokkið til baka:)  Algjörlega frábært hjálpartæki bara.

Er að renna i dag 2 -  kennsla i 3 tíma og svo skolasetning og grill.  Og ekki má gleyma að tilkynna það að ég labbaði á Grábrók í gær með hópi manna, og Róberti og vini hans.  Alveg frábært. 

Og krökkunum var báðum boðin gisting i nótt hjá vinum sínum,  svo það var rólegt hjá mer í gærkveldi.  Þau eiga örugglega eftir að verða mjög sjalstæð hérna,  manni verður bara smá um og ó hversu fljótt þau detta inn í samfélagið, maður vill svo mikið vera að stjórnast með þau.    En vonandi er þetta ekki bara nyjabrumið og þau finni sig betur og betur.  


Síðasti frídagur

Á morgun byrjar skólinn, ég æfði mig i morgun með krökkunum og skreið ekki upp í rúm eftir að þau voru farin heldur skellti mér i sturtu og málaði mig, blés hárið og gerði allar morgunkúnstirnar til að venja mig við aftur:)

Þetta leggst svo vel í mig, ég er svo lukkuleg að vera að gera það núna sem mig hefur dreymt um í mörg ár,  las svo pistil í morgun hjá Beggu bloggvinkonu, beggita.blog.is  sem var æðislegt að lesa, ég held að þessir elsku guttar i handboltanum séu búnir að sá þvílíku fræi í hjarta margra, ég horfði á heimkomu þeirra og var með gæsahúð allan timann,  það er magnað að upplifa þessa stemmingu og finna hana síast inn í mann sjálfan.    Alveg nauðsynlegt og kvíðahnútur í maga vegna framtíðar hefur horfið hjá mér og í bara vissu og tilhlökkun.  Maður gerir sitt besta og ef maður er ekki með neitt bíbb  á vörunum þá er augnablikið miklu skemmtilegra.     

Það var dásamlegt að horfa á eftir krökkunum í morgun af stað í rútu,  svo glöð og eftirvæntingarfull fyrir deginum,  og þau smituðu mig alveg:)

Fréttir bárust i gær að  talsverðar breytingar eru fyrirhugaðar á mínum vinnustað sem ég er nýhætt hjá, sameinuð ein þrjú sölufyrirtæki. Auðvitað þurftu þeir að gera eitthvað róttækt finnst ég er hætt þarna, heheh    en vonandi gengur það vel og allir starfsmenn verði sáttir við þær breytingar sem óhjákvæmlega verða.   Enn og aftur sannast að ég er á nákvæmlega réttu augnabliki að gera breytingar á mínu lífi:)


Komin á nýjan stað

Jæja - þá er mín mætt á nýja staðinn sinn:)  Okkur líst öllum rosa vel á þetta og krakkarnir eru byrjuð i skólanum og komu eitt sólskinsbros heim eftir fyrsta daginn. 

 Ég vil byrja á að þakka þessum eftirtöldu fyrir ómetanlegan stuðning við flutninginn: Jónas stórvinur minn, óþreytandi að koma til aðstoðar,  Maggi minn bestasti sem segir eiginlega aldrei nei við mömmu sína, Bjarni bróðir og Lilja mágkonu duttu óvænt inn í plönin og lögðu fram ómetanlega aðstoð og bíl, Helgi tvíbbinn minn sem var bara stoltur að flytja systur sina og skoða gamlar slóðir og rifjaði upp í leiðinni góðar minningar hans, Lóa mín kæra vinkona sem fór yfir síðustu fíneringar í íbúðinni, Davíð ofvirki nágranninn minn og Fúsi "fósturafi" krakkana, kærar þakkir fyrir alla hjálpina sem var mér mikils virði.

og allir aðrir fyrir frábæra hvatningu og jákvæðni, alveg með ólíkindum hvað ég fæ mikinn stuðning við þessar breytingar:)

 Og nú sit ég bara og bíð spennt, skólinn byrjar hjá mér á föstudag.   Er búin að skoða hér ýmislegt og ætla að drífa mig í ræktina núna, þar sem ég er búin að sitja hér við tölvuna i allan dag......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband